Sæunn Stefánsdóttir
Þórólfur Árnason
Andri Árnason
Sylviane Pétursson Lecoultre
Þór Sigfússon
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Saga stjórnar Hlutverkaseturs
Árið 2003 var sótt um styrk til Félagsmálaráðuneytisins í tengslum við Evrópuár fatlaðra. Í þeirri umsókn voru fyrstu drög að stofnun Hlutverkaseturs sett fram. Styrkurinn var nýttur til að halda borgarafund, útgáfu á kynningarbæklingum um valdeflingu og gerð viðskiptaáætlunar um stofnun á nýju fyrirtæki. Viðskiptaáætlunin var kosin sú áhugaverðasta af Impru árið 2004.
Sama ár fékkst styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Heilbrigðisráðuneytinu þar sem notendur geðheilbrigðisþjónustunnar fengu tækifæri til að sýna í verki að þeirra reynsla og þekking hefði verðgildi; Notandi spyr notanda NsN.
Iðnaðarráðuneytið veitti styrk sem varð til þess að fyrirtækið AE starfsendurhæfing, sem rekur Hlutverkasetur, komst á laggirnar. Í aðdraganda stofnunar Hlutverkaseturs var leitað til einstaklinga sem höfðu þekkingu og reynslu í stjórnarsetu og höfðu sýnt geðheilbrigðismálum stuðning, velvild og áhuga.
Í borgarstjórnartíð Þórólfs Árnasonar voru haldnar tvær útihátíðir að frumkvæði og í umsjón þeirra sem nýttu sér geðheilbrigðisþjónustu í Reykjavík. Því var leitað fyrst til Þórólfs til að koma hugmyndinni um Hlutverkasetur áfram. Hann hóaði saman fólki í lykilstöðum sem myndaði bakhjarlahóp hugmyndinni til framdráttar.
Hugmyndafræðileg nálgun starfseminnar yrði byggð annars vegar á hugmyndafræði valdeflingar (empowerment) þ.e. að eiga rétt á hafa áhrif á þá aðstoð sem hver einstaklingur þarfnast og hins vegar á faglíkaninu um iðju mannsins (MOHO), um nauðsyn þess að hafa hlutverk í lífinu og trúa á eigin áhrifamátt.
Stofnfundur AE starfsendurhæfingar sem rekur Hlutverkasetur í dag var haldinn þann 13. maí 2005. Stofnendur voru: Andri Árnason, Auður Axelsdóttir, Árni Gunnarsson, Elín Ebba Ásmundsdóttir, Hulda Styrmisdóttir og Þórólfur Árnason. Þau sátu jafnframt í fyrstu stjórninni og var Árni Gunnarson kjörinn stjórnarformaður. Í fundargerð fyrsta fundar segir:
Tilgangur félagsins er rekstur starfsendurhæfingar sem mun vinna að því að efla virkni og þátttöku fólks með geðsjúkdóma og annarra sem misst hafa hlutverk til að skapa tækifæri til áframhaldandi starfa á almennum vinnumarkaði, forvarnarstarf, að efla notendaáhrif, að skapa hlutverk og setja sérþekkingu geðsjúkra í farveg. Sérþekking geðsjúkra verður nýtt á jákvæðan hátt til nýsköpunar og þjónusta mótuð í samvinnu við notendur.
Litlar breytingar hafa orðið á stjórninni frá upphafi. Hulda Styrmisdóttir (2005–2007), Auður Axelsdóttir (2005–2008), Árni Gunnarsson (2005–2018), Jóhanna E. Vilhelmsdóttir (2009–2022), Anna Gunnhildur Ólafsdóttir (2021-2023) og Erik Eriksson (2021-2024) eru þeir stjórnarmeðliðmir sem hafa hætt. Í stað þeirra komu Sæunn Stefánsdóttir (2008), Þór Sigfússon (2018), og Sylviane Péturson Lecoultre (2024). Frá árinu 2008 hefur Elín Ebba verið einn eigandi fyrirtækisins og jafnframt framkvæmdastjóri.
Síðustu árin hafa verið haldnir fimm stjórnarfundir auk aðalfundar á hverju ári. Öll vinna stjórnar er sjálfboðavinna.
Árið 2024 voru eftirfarandi skipuð í stjórn: Sæunn Stefánsdóttir formaður, Þórólfur Árnason varaformaður, Andri Árnason, Sylviane Péturson Lecoultre og Þór Sigfússon meðstjórnendur og Elín Ebba Ásmundsdóttir sem varamaður.